Lögmenn Kaupþings banka skoða um þessar mundir möguleika á því að lögsækja Ekstra Bladet fyrir breskum dómstólum vegna skrifa danska blaðsins í lok október og byrjun nóvember, samkvæmt frétt danska fréttavefjarins Erhverv.
Í umfjöllun Ekstra Bladet var m.a. fjallað um meint tengsl Kaupþings banka við rússnesku mafíuna og meint peningaþvætti.
Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings banka, sagðist í samtali við Morgunblaðið ekki geta staðfest að danska blaðið yrði sótt til saka en þótti það afar líklegt. Rökin fyrir því að höfða mál í Bretlandi eru m.a. þau að greinarskrifin voru þýdd yfir á ensku og birt á vefsvæði Ekstra Bladet. Bankinn er alþjóðlegt fyrirtæki með útibú í Bretlandi og því opnast sá möguleiki.