Actavis hefur keypt bandaríska lyfjafyrirtækið Abrika Pharmaceuticals Inc., sem sérhæfir sig í þróun og sölu forðalyfja (lyf þar sem losun virka efnisins er stjórnað) og samheitalyfja sem erfið eru í þróun. Heildarkaupverð er 181 milljón evra (16,5 milljarðar króna), þar af nema árangurstengdar greiðslur 96 millljónum evra (8,7 milljarðar króna) sem eru til greiðslu á næstu þremur árum.
Í tilkynningu frá Actavis kemur fram að eftir kaupin er Actavis í hópi leiðandi fyrirtækja í Bandaríkjunum á sviði þróunar forðalyfja. Samstæðan verður með 50 forðalyf í þróun og 100 starfsmenn sem vinna eingöngu að þróun lyfjanna. Þá stefnir Actavis að því að fjárfesta fyrir um 50 milljónir evra í þróun forðalyfja á árinu 2007. Þá hefur samstæðan 13 forðalyf í skráningum eftir kaupin hjá lyfjayfirvöldum (FDA) í Bandaríkjunum sem bíða samþykktar.
Abrika var stofnað í maí 2002 af Alan Cohen, sem er núverandi stjórnarformaður félagsins. Alan var einnig stofnandi og stjórnarformaður Andrx, sem er í hópi stærstu samheitalyfjafyrirtækja í Bandaríkjunum. Félagið er með höfuðstöðvar á Flórída og þar starfa um 40 starfsmenn. Abrika hefur sérhæft sig að miklu leyti í þróun forðalyfja og annarra lyfja sem erfið eru í þróun og framleiðslu, þar sem notast er við ákveðin samheitalyf og þróuð aðferð til að breyta losun þeirra. Þá starfrækir félagið lyfjaverksmiðju í Flórída.
„Sérhæfing Abrika liggur fyrst í fremst í þróun forðalyfja og hefur félagið m.a. sótt um níu lyfjaskráningar hjá lyfjayfirvöldum í Bandaríkjunum (FDA) og kom fyrsta lyf félagsins (isradipine) á markað á fyrsta ársfjórðungi 2006.
Abrika telur líklegt að það hafi tryggt sér einkarétt á sölu tveggja lyfja fyrir Bandaríkjamarkað (first-to-file exclusivity) ,þar sem félagið var fyrst til að leggja inn lyfjaskráningu til yfirvalda og eru þau lyf væntanleg á markað eftir árið 2007. Stefnt er að markaðssetningu fjölda nýrra lyfja á næstu árum og búist er við þremur nýjum lyfjum á markað fyrir lok ársins 2007 og 5-6 lyfjum á árinu 2008.
Gert er ráð fyrir að tekjur Abrika nemi um 20 milljónum evra (1,8 milljarði króna) á árinu 2007, 35 milljónum evra (3,2 milljarðar) á árinu 2008 og búist er við að EBITDA framlegðarstig félagsins verði um 40% á árunum tveimur," samkvæmt tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Heildarkaupverð er 181 milljón evra, þar af verða 85 milljónir evra greiddar í janúar í kjölfar samþykki samkeppnisyfirvalda. Sú fjárhæð er fjármögnuð með lánsfé á sambærilegum kjörum og núverandi skuldir Actavis. Sjóðsstaða Abrika við yfirtöku er áætluð um 4 milljónir evra.
Kaupin eru með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda í Bandaríkjunum, sem búist er við að liggi fyrir í janúar 2007. Félagið verður frá þeim tíma tekið að fullu inn í reikninga samstæðunnar.