Glitnir opnaði í dag skrifstofu í Shanghai í Kína. Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, voru viðstödd opnunina auk fulltrúa kínverskra stjórnvalda og borgaryfirvalda í Shanghai, fulltrúa norrænna fyrirtækja með aðsetur í borginni og gesta úr asísku viðskiptalífi.
Samkvæmt upplýsingum frá Glitni er meginhlutverk skrifstofunnar að veita almenna fjármálaþjónustu á áherslusviðum bankans á alþjóðlegum mörkuðum, svo sem í matvælaiðnaði, sérstaklega sjávarútvegi, sjálfbærri orkuframleiðslu og skipaiðnaði og veita einnig núverandi viðskiptavinum bankans fjármálaþjónustu og stuðning í verkefnum þeirra í Kína. Þá mun skrifstofan veita kínverskum fyrirtækjum þjónustu á sérsviðum bankans og aðstoða þau fyrirtæki, sem leita eftir norrænum samstarfsaðilum eða starfa á öðrum mörkuðum Glitnis.