Um 197 þúsund Danir lesa nú Nyhedsavisen daglega samkvæmt nýrri könnun, sem Gallup hefur gert fyrir blaðið um lestur á þarlendum dagblöðum Könnun sem gerð var fyrir mánuði benti til þess að 167 þúsund Danir læsu blaðið.
Blaðið 24timer, sem gefið er út af JP/Politikens Hus, er útbreiddasta fríblaðið, sem borið er í hús, en samkvæmt könnuninni lesa 398 þúsund Danir blaðið reglulega. Er það svipuð tala og fyrir mánuði. Lesendur Dato, sem Det Berlingske Officin gefur út, eru 122 þúsund og hefur þeim fækkað umtalsvert frá síðustu könnun.
Íslenska fyrirtækið 365 Media Fund gefur Nyhedsavisen út. Haft er eftir Morten Nissen Nielsen, framkvæmdastjóra blaðsins, á fréttavef þess, að haldi þessi þróun áfram muni blaðið ná 1 milljón lesenda næsta sumar eins og stefnt var að og greinilegt, að gæði ritstjórnarefnis í blaðinu hafi áhrif.
Samkvæmt könnuninni er fríblaðið Metroxpress stærsta blað Danmerkur með 598 þúsund lesendur og Urban fylgir á eftir með 536 þúsund lesendur. Báðum þessum blöðum er dreift ókeypis á lestar- og umferðarmiðstöðvum og á götum úti. Jyllands-Posten og Politiken eru stærstu morgunáskriftarblöðin, bæði með 475 þúsund lesendur og Berlingske Tidende er með 305 þúsund lesendur. Af síðdegisblöðunum tveimur er B.T., með 348 þúsund lesendur, stærra en Ekstra Bladet, sem hefur 341 þúsund lesendur.