Jón Ásgeir Jóhannesson er í öðru sæti á lista breska tískutímaritsins Drapers Fashion magazine yfir áhrifamesta fólkið í breskum tískuiðnaði. Blaðið tekur árlega saman lista yfir 100 áhrifamesta fólkið í þessum geira.
Í fyrsta sæti á lista blaðsins er Stuart Rose, forstjóri Marks & Spencer. Jón Ásgeir er sem fyrr segir í öðru sæti og í því þriðja er Arthur Ryan, forstjóri Primark. Þá má geta þess að á síðasta ári var Jón í 14. sæti á lista blaðsins, samkvæmt tilkynningu frá Baugi.
Í fjórða sæti á lista Drapers Fashion magazine er Energy Cost, í fimmta sæti er Philip Green, eigandi Arcadia og í því sjötta er Derek Lovelock, forstjóri Mosaic Fashion en Baugur Group á 37% í fyrirtækinu. Þá er Don McCarthy, sem jafnframt er stjórnarformaður House of Fraser, sem Baugur Group festi kaup á í síðasta mánuði, í sjöunda sæti á lista Drapers Fashion.
Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Baugs Group í London, er nýr á lista Drapers Fashion en blaðið setur Gunnar í fjórtánda sætið yfir áhrifamesta fólkið í breskum tískuiðnaði og tekur Gunnar við því sæti sem Jón Ásgeir var í árið 2005. Þá er Kevin Stanford, stofnandi og fyrrum eigandi Karen millen í 17. sæti og í 42. sæti listans er nýr forstjóri House of Fraser, John Keane. Þá er Kate Moss í 29. sæti listans, Victoria Beckham er í 65. sætinu og Elle McPherson er í 76. sæti.
„Þetta er vissulega mikill heiður og jafnframt staðfesting á því hversu öflugt fyrirtæki Baugur Group og félög tengd Baugi eru orðin á alþjóðamarkaði,” segir Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, í fréttatilkynningu.