Tölur, sem Hagstofan birti í morgun um hagvöxt á þriðja ársfjórðungi, ásamt verðbólgutölum frá í gær draga að mati Greiningar Glitnis talsvert úr líkum á að Seðlabankinn muni hækka vexti í næstu viku en tilkynning um ákvörðun Seðlabankans verður birt fimmtudaginn 21. desember. Glitnir segir, að hagtölurnar beri þess skýr merki að umskipti séu að verða í ganginum í þjóðarbúskapnum þar sem tímabil stöðnunar og hugsanlega samdráttar sé að taka við af hröðum vexti.
Hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi mældis 0,8% og er það minnsti hagvöxtur sem mælst hefur á einum ársfjórðungi frá því í lok árs 2003. Á sama ársfjórðungi í fyrra var hagvöxturinn 10%.
Glitnir segir í Morgunkorni sínu, að hagvöxturinn á þriðja ársfjórðungi hafi verið lítill í alþjóðlegum samanburði. Af Norðurlöndunum var hagvöxturinn minnstur hér á landi á þessum tíma. Mestur var hann í Finnlandi 5,8%, 4,4% í Svíþjóð, 3,8% í Danmörk og 2,6% í Noregi. Hagvöxtur í Bandaríkjunum var 3% á þriðja ársfjórðungi, 2,7% í Bretlandi, 2,7% á evrusvæðinu og 1,6% í Japan.
Glitnir segir, að ytra ójafnvægi þjóðarbúsins sé verulegt. Viðskiptahallinn sem hlutfall af landsframleiðslu mældist 27% á þriðja ársfjórðungi og hefur aldrei mælst jafn mikill á einum ársfjórðungi. Glitnir segir, að þó megi sjá núna merki þess að viðskiptahallinn hafi náð hámarki því samdráttur sé hafinn í innflutningi. Er það í fyrsta sinn síðan 2002 sem samdráttur mælist í innflutningi og tengist það bæði samdrætti í innfluttum hluta einkaneyslu og samdrætti í fjármunamyndun.