FL Group selur 22,6% í Straumi Burðarási

Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums og Friðrik Jóhannsson forstjóri.
Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums og Friðrik Jóhannsson forstjóri. mbl.is/Sverrir

Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. hefur, ásamt fjárfestum, samþykkt að kaupa 2.338.864.240 hluti eða 22,6% heildarhlutafjár í Straumi-Burðarási af FL Group.

FL Group eignaðist hlut sinn í Straumi-Burðarási síðla sumars 2006 eftir að mikil átök höfðu átt sér stað innan stjórnar Straums Burðaráss, það er Björgólfs Thors Björgólfssonar, stjórnarformanns Straums og Magnúsar Kristinssonar og Kristins Björnssonar. Urðu lyktir málsins þær að Magnús, Kristinn Björnsson og tengdir aðilar seldu 24,2% hlut sinn í félaginu til FL Group og stigu úr stjórn.

Alls kaupir Straumur-Burðarás 1.025.554.736 hluti, eða tæplega 10% af hlutafénu en aðrir fjárfestar kaupa samanlagt 1.313.309.504 hluti eða tæplega 13% af hlutafénu, en enginn fjárfestanna fer yfir 5% flöggunarmörk, að því er segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Kaupendur greiða 18 kr. fyrir hvern hlut og er heildar kaupverðið því um 42,1 milljarður króna. Kaupverðið greiðist með um 28,3 milljörðum króna í reiðufé, um 10,2 milljarðar króna greiðast með hlutum í finnska flugfélaginu Finnair og um 3,5 milljarðar króna greiðast með hlutum í skráðum íslenskum félögum. FL Group og Hannes Smárason eru fruminnherjar í Straumi-Burðarási.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um fjármögnun en stefnt er að því að ljúka viðskiptunum þann 22. desember n.k. Fyrirtækjasvið Straums-Burðaráss hafði milligöngu um viðskiptin.

Friðrik Jóhannsson, forstjóri Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka, segir í tilkynningu:
,,Með þessum kaupum erum við að opna fyrir möguleikann á aðkomu nýrra og áhugaverðra hluthafa að Straumi-Burðarási. Það mun veita bankanum meðbyr í áframhaldandi sókn á innlendum og á alþjóðlegum vettvangi. Um leið og við þökkum FL Group og forsvarsmönnum félagsins fyrir farsælt samstarf bjóðum við nýja hluthafa velkomna í hópinn og hlökkum til að takast á við þau tækifæri sem bíða okkar í framtíðinni með þeim.“

Hannes Smárason forstjóri FL Group, segir í tilkynningu:
,,Það hefur verið ánægjulegt að vinna með forsvarsmönnum Straums-Burðaráss undanfarna mánuði og óskum við þeim velfarnaðar með félagið. Salan á hlut FL Group í Straumi-Burðarási gefur FL Group aukin byr í seglin og eykur fjárfestingagetu okkar til muna. Í kjölfarið á kaupum okkar í Straumi-Burðarási í sumar jók FL Group eigið fé um ríflega 35 miljarða króna sem skipti sköpum fyrir fjárhagslegan styrk félagsins. Við horfum björtum augum til framtíðar. ”

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK