Actavis hefur selt lyfjaverksmiðju sína í Lier í Noregi og hefur gert fimm ára framleiðslusamning við sænska framleiðslufyrirtækið Inpac. Sala verksmiðjunnar er í samræmi við markmið félagsins um samþættingu framleiðslueininga og að styrkja framlegðarstig samstæðunnar á næstu árum.
Á vef Actavis kemur fram að Actavis eignaðist verksmiðjuna í desember 2005 við kaupin á lyfjafyrirtækinu Alpharma og hefur hún aðallega framleitt töflur, krem og smyrsli, einkum til sölu á Norðurlöndunum, Evrópu og Mið-Austurlöndum. Norska tryggingarfélagið Storebrand kaupir verksmiðjuna og leigir síðan áfram til Inpac, sem mun að fullu taka yfir starfsemi hennar. Sala verksmiðjunnar mun ekki hafa nein fjárhagsleg áhrif á árinu 2006 og að teknu tilliti til kostnaðar sem tengist sölunni, greiðir Storebrand 10 milljónir evra (900 milljónir króna) til Actavis, sem er í samræmi við bókfært virði eignarinnar í efnahagsreikningi.
Lyfjaverksmiðja Actavis í Vennesla í Noregi, sem framleiðir m.a. plástra undir merkjum Norgesplaster, tengist ekki þessum breytingum og engin áhrif eru á sölustarfsemi félagsins á markaðnum.