Væntingavísitala Gallup var 139,2 stig í desember og hefur ekki verið hærri frá því mælingar hófust í mars 2001. Neytendur meta núverandi ástand í efnahags- og atvinnumálum mjög gott og skýrir það að mestu hátt gildi vísitölunnar. Bæði vísitala fyrir núverandi ástandi og væntingavísitala fyrir ástandið eftir 6 mánuði náðu nýju hámarki nú í desember.
Fram kemur í Vegvísi Landsbankans, að vísitala fyrirhugaðra stórkaupa, sem reiknuð er ársfjórðungslega, hafi hækkað um 3,3 stig í desember frá því í september. Þessi vísitala lækkaði á milli mælinga í tveimur síðustu mælingum, í september og júní, en er þó lægri en hún var í mars sl.
Vísitala fyrirhugaðra stórkaupa er meðaltal fyrir vísitölur bifreiðakaupa, húsnæðiskaupa og kaupa á utanlandsferðum. Neytendur fyrirhuga minni bifreiðakaup en áður, en heldur fleiri utanlandsferðir. Fyrirhuguð fasteignakaup vaxa mikið miðað við mælingar í september og júní. Aukin bjartsýni neytenda getur gefið til kynna aukna einkaneyslu.