FL Group selur Sterling fyrir 20 milljarða

Flugvél Sterling á Reykjavíkurflugvelli.
Flugvél Sterling á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Júlíus

FL Group hefur selt lággjaldaflugfélagið Sterling fyrir 20 milljarða króna. Kaupandi félagins er nýstofnað fyrirtæki í ferðaþjónustu sem fengið hefur heitið Northern Travel Holding. Hluthafar nýja fyrirtækisins eru íslensku fjárfestingafélögin Fons, FL Group og Sund. Innan Northern Travel Holding verða einnig Iceland Express, 51% hlutur í breska leiguflugfélaginu Astraeus, 29,26% hlutur í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket sem skráð er á sænska hlutabréfamarkaðinn og allt hlutafé í dönsku ferðaskrifstofunni Hekla Travel.

FL Group eignaðist Sterling í október á síðasta ári, eftir að það hafði sameinast Maersk Air. FL Group greiddi um 14,6 milljarða íslenskra króna á þáverandi gengi fyrir Sterling en hluti kaupverðsins var afkomutengdur.

Í tilkynningu segir, að sala á Sterling sé rökrétt skref fyrir FL Group til að auka verðmæti félagsins. Kaupverðið verði greitt með 6 milljörðum króna í reiðufé og 14 milljörðum króna í formi seljendaláns til þriggja ára sem FL Group veitir. Til viðbótar þessu muni Northern Travel Holding taka yfir á næstu tólf mánuðum rekstrarlán og ábyrgðir sem FL Group hefur veitt Sterling.

Salan á Sterling hefur lítil áhrif á rekstur FL Group og stöðu eigin fjár, að því er kemur fram í tilkynningunni. Eftir söluna verður Sterling ekki lengur hluti af samstæðureikningsskilum FL Group. Salan fellir úr gildi ákvæði um mögulega lækkun kaupverðs samkvæmt upphaflegum kaupsamningi milli FL Group og Fons, en FL Group fær sömu fjárhæð í reiðufé úr viðskiptunum.

Fons á 44% hlut í Northen Travel Holding, FL Group á 34% og Sund 22%. Félagið er fjármagnað með lánsfé og eigin fé en alls hefur félagið 11,5 milljarða króna í eigið fé.

Auk kaupanna á Sterling kaupir Northern Travel Holding allt hlutafé í Iceland Express, 51% hlutafjár í leiguflugfélaginu Astraeus, alla hluti í Hekla Travel og um 30% útistandandi hluta í Ticket. Samanlögð velta þeirra félaga sem Northern Travel Holding kaupir er áætluð um 120 milljarðar króna og félagið flýgur um 7,5 milljón farþegum árlega.

Í tilkynningu er haft eftir Hannesi Smárasyni, forstjóra FL Group, að salan á Sterling sé mikilvægt skref fyrir FL Group, þar sem félagið hafi nú selt síðasta dótturfélag sitt á sviði flugrekstrar. Rekstur Sterling hafi aldrei gengið betur og því liggi mikil tækifæri í félaginu fyrir nýja eigendur.

Pálmi Haraldsson, stjórnarformaður Northern Travel Holding, segir að félögin muni starfa í óbreyttri mynd frá því sem verið hefur og engin áform séu uppi um breytingar á starfsmannahaldi. Hluthafar Northern Travel Holding hyggist stækka og efla samstæðuna með því að byggja enn frekar upp kjarnastarfsemi hvers og eins þeirra fyrirtækja sem mynda stoðir hins nýja félags og um leið með því að auka samstarf þeirra. Markmiðið sé að Northern Travel Holding verði arðbært, framsækið og leiðandi fyrirtæki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka