HB Grandi hf. mun stofna dótturfyrirtækið Atlantic Pelagic B.V. í Hollandi og mun nýja dótturfélagið kaupa uppsjávarfrystiskipið Engey RE-1, stærsta skip íslenska fiskveiðiflotans, af HB Granda og gera skipið út til veiða á makríl, hrossamakríl, sardínu og sardínellu úti fyrir ströndum Afríku. Allri áhöfn Engeyjar verður sagt upp og mun ný áhöfn verða ráðin í Hollandi. Lykilstöður verða mannaðar Íslendingum.
Í tilkynningu frá HB Granda segir, að stofnun Atlantic Pelagic og útgerð Engeyjar við Afríku muni efla reksturinn og nýta betur þær fjárfestingar, sem félagið hafu yfir að ráða. Með vexti félagsins í kjölfar sameininga liðinna ára hafi áunnist tækifæri, sem verið sé að nýta sem best. Atlantic Pelagic mun vinna í nánu samstarfi við hollenska útgerðarfélagið Parlevliet & Van der Plas og mun það félag einnig annast markaðssetningu afurða Engeyjar.
HB Grandi segir, að rekstur Engeyjar hafi gengið vel frá því skipið kom fyrst til veiða við Ísland í júní árið 2005. Á árinu 2006 var aflaverðmæti skipsins 1451 milljónir. Það hafi hins vegar haft áhrif á afkomu Engeyjar, samanborið við vinnslu í landi, að mjölverð hafi hækkað mikið á sama tíma og verð frystrar síldar gefið eftir.