Bankarnir að undirbúa að yfirgefa krónuna sem uppgjörsmynt?

.
.

Greiningardeild Landsbankans segir í Vegvísi sínum í dag, að ljóst sé af tölum um gjaldeyrisstöðu viðskiptabankanna þriggja, að þeir séu enn að safna gjaldeyri af fullum krafti. Erfitt sé að sjá annan tilgang í jafn mikilli uppbyggingu gjaldeyrisforða bankanna en að þeir séu, einn eða fleiri, í alvöru að undirbúa að yfirgefa krónuna sem uppgjörsmynt.

Samkvæmt tölum Seðlabankans var nettógjaldeyrisstaða bankanna í lok desember jákvæð um 188,5 milljarða og hækkaði um 81,4 milljarða milli mánaða. Greiningardeild Landsbankans segir, að þetta sé langmesta hækkun gjaldeyrisstöðunnar í einum mánuði frá því að Seðlabankinn hóf að birta tölur um gjaldeyrisjöfnuðinn.

Þar til í nóvember 2005 var gjaldeyrisjöfnuður bankanna nánast undantekningalaust í jafnvægi og var almennt litið svo á að veruleg frávik frá núlli væru til þess fallin að auka áhættu í fjármálakerfinu. Í Vegvísi segir, að í árslok 2005 hafi gengi krónunnar verið komið í sögulegar hæðir og öllum orðið ljóst að leiðrétting var yfirvofandi fyrr en síðar. Við þessar aðstæður hafi nokkrir viðskiptabankanna gripið til þess ráðs að byggja upp stöðu í gjaldeyri í því augnamiði að verja eiginfjárstöðu sína fyrir áhrifum af væntanlegu falli krónunnar. Þessi ráðstöfun kom sér vel þegar gengið féll á fyrrihluta ársins 2006 en um mitt síðasta ár var gjaldeyrisstaðan um 80 milljarðar króna.

„Kaflaskil urðu síðan í þessari þróun þegar Straumur-Burðarás tilkynnti fyrir jól að fyrirtækið hygðist flytja eigið fé bankans yfir í evrur. Margt bendir til þess að aðrar bankastofnanir séu að skoða í fullri alvöru sambærilegar breytingar. Það er í þessu ljósi sem hækkun gjaldeyrisjafnaðarins í desember er sérlega áhugaverð," segir í Vegvísi.

Greiningardeild Kaupþings fjallar í ½5 fréttum sínum einnig um þetta mál og segir, að uppbyggingu gjaldeyrisforða megi rekja til þess, að bankarnir hafi verið að stækka við sig erlendis sem valdi því að æ stærri hluti af efnahagsreikningi þeirra sé í erlendri mynt. Þetta bjóði þeirri hættu heim, að lækkun á gengi krónunnar verði til þess eiginfjárhlutfallið lækki þar sem allar erlendar eignir og skuldir hækka í krónum talið en eigið fé í innlendri mynt standi í stað. Bankarnir hafi því af þeim sökum tekið upp þá stefnu, að reka jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð til að verja eiginfjárhlutfall sitt gegn neikvæðum áhrifum af veikingu krónunnar.

Á sama tíma og erlendar eignir bankastofnanna vaxi til muna virðist sem krónueign erlendra aðila hafi sjaldan eða aldrei verið meiri. Þessa stöðu þurfi þó ef til ekki að undra í ljósi þess, að vaxtamunur við útlönd er nú í hæstu hæðum eða í kringum 11%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK