Evrópski seðlabankinn (ECB) mun tilkynna vaxtaákvörðun á morgun. Sem stendur eru stýrivextir á evrusvæðinu 3,5% og voru síðast hækkaðir í desember. Búist er við óbreyttum vöxtum nú í janúar en að vextir verði komnir í 3,75% í lok þessa ársfjórðungs.
Englandsbanki mun einnig tilkynna vaxtaákvörðun þar í landi og eins og hjá ECB er búist við óbreyttum vöxtum. Í Japan verður vaxtaákvörðun tekin þann 18. þessa mánaðar. Sterklega er búist við að vextir verði hækkaðir um 0,25 prósentustig í 0,5% og ef ekki nú þá við næstu vaxtaákvörðun sem er 21. febrúar.
Í Bandaríkjunum verður vaxtaákvörðun tekin í lok þessa mánaðar. Stýrivextir í Bandaríkjunum eru 5,25% og hækkunarferli þeirra er að öllum líkindum lokið. Flest bendir til að vextir þar verði óbreyttir þó að hugsanlegt sé að þeir verði lækkaðir, að því er fram kemur í Morgunkorni Glitnis.
„Í stýrivaxtaspá okkar fyrir Ísland gerum við ráð fyrir því að Seðlabankinn haldi vöxtum sínum óbreyttum frammí maí en lækki þá vexti. Stýrivextir viðskiptalanda okkar eru heldur að hækka og því mun munur á innlendum og erlendum skammtímavöxtum heldur lækka á næstu mánuðum en þó ekkert umtalsvert fyrr en líða tekur á árið og nokkuð er liðið á lækkunarferli hérlendis. Í árslok gerum við ráð fyrir að munur innlendra og erlendra stýrivaxta verði enn rúmlega 7 prósentustig og enn meiri á peningamarkaði eða um eða yfir 10%.
Þeir sem hafa tekið erlend lán eða huga á slíkar lántökur munu greiða hærri vexti á þessu ári en oft áður. Lántaka í evrum, Bandaríkjadölum og jenum er algeng en vextir þessara mynta fara hækkandi eða eru í hámarki. Þannig gefa framvirkir vextir til kynna að evruvextir munu hækka um 0,5 prósentustig á árinu og að japanskir vextir verði komnir í 0,75% að ári liðnu. Þrátt fyrir að í Bandaríkjunum telji menn líkurnar á lækkun vaxta meiri en hækkun er lækkun ekki merkjanleg í framvirkum vöxtum á peningamarkaði. Vaxtakostnaður í erlendum lánum mun því verða með mestu móti næstu misserin," samkvæmt Morgunkorni.