Kaupþing banki er að kaupa bresku tískuvörukeðjuna Phase Eight fyrir 55 milljónir punda, tæplega 7,7 milljarða króna. Seljandinn er Barclays, að því er segir á vef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Samkvæmt blaðinu eru viðræður langt komnar en Kaupþing var valið úr hópi áhugasamra kaupenda að loknu útboði.
Samkvæmt heimildum Daily Telegraph er Dalah-fjölskyldan með í kaupunum með Kaupþingi. Fjölskyldan á heiðurinn af tískuvörumerkinu Kookai. Dalah-fjölskyldan á hlut í verslunarkeðjunni Jane Norman með Kaupþingi.