Allar líkur eru að að gengið verði að 450 milljóna punda boði emírsins af Dubai í knattspyrnuliðið Liverpool. Samsteypan Dubai International Capital, sem er í eigu emírsins, Sheik Mohammed bin Rashid al-Maktoum, hefur undanfarinn mánuði kannað rækilega fjárreiður Liverpool.
Verði af kaupunum munu þau gera félaginu kleift að reisa nýjan leikvang, sem taka á sextíu þúsund manns í sæti, skammt frá Anfield.
Rick Parry, framkvæmdastjóri Liverpool, sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið í dag, að Dubai International hefði heitið því að fjármagna frekari leikmannakaup til að Liverpool geti staðist Manchester United og Chelsea snúning.