Ástralski bankinn Commonwealth Securities hefur hafið að birta iPod-vísitölu til að fylgjast með þróun verðlags og gjaldeyris, en vísitalan byggir á svipaðri hugmynd og hin svokallaða Big Mac vísitala, þar sem verð á Macdonalds hamborgurum er tekin saman. Vasadiskóið vinsæla þykir henta betur þar sem tækin fást um allan heim, en eru öll framleidd á einum stað og ættu því tæknilega að kosta það sama allsstaðar.
iPod þykir því henta betur en hamborgarinn, þar sem hamborgararnir eru framleiddur hver í sínu landi og hráefniskostnaður misjafn.
Bankinn byggir vísitöluna á tveggja gígabæta iPod Nano, sem er geysivinsæll og auðfáanlegur víðast hvar í heiminum. Ódýrast er tækið í Kanada, hvar það kostar 144 Bandaríkjadali, eða um 9.900 krónur, en dýrast í Brasilíu þar sem það kostar 327 dali, eða um 22.500 krónur.
Alls er verð borið saman í 26 löndum, en Ísland er ekki með á þeim lista, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Apple á Íslandi kostar 2 gígabæta iPod nano 20.990 krónur, eða um 304 dali. Ef Ísland væri með á listanum mætti því búast við því að það yrði í öðru sæti því sá sem næstdýrastur er á lista Commonwealth Securities kostar 222 dali, eða rúmar 15.000 krónur.