Fjárfestar hafa tekið ársuppgjöri Landsbankans, sem birtist í morgun, vel en gengi bréfa bankans hefur hækkað um 3,09% í viðskiptum í Kauphöll Íslands í morgun. Uppgjör Landsbankans var mun betra en sérfræðingar höfðu spáð. Á síðasta fjórðungi síðasta árs skilaði bankinn 13,7 milljarða króna hagnaði og alls 40,2 milljarða hagnaði á síðasta ári.
Í Morgunkorni Greiningar Glitnis kemur fram, að uppgjör Landsbankans sé umfram væntingar í flestum liðum rekstrarreiknings og efnahagsreiknings. Uppgjörið bankans sé verulega gott og gefi hlutabréfum bankans byr á markaði.
Úrvalsvísitalan hefur hækkað um nærri 1,5% og nálgast 7000 stig.