Chad Hurley, annar stofnandi myndbandasíðunnar YouTube, tilkynnti á ráðstefnu World Forum í Davos í Sviss í dag, að fyrirtækið ætlaði að byrja að deila tekjum af síðunni með notendum, sem setja myndbönd inn á síðuna. Netveitan Google keypti YouTube í nóvember fyrir 1,65 milljarða dala, jafnvirði 115 milljarða króna.
Hurley sagði í Davos, að verið væri að vinna að því að gera kleift að greiða notendum fyrir efni, sem þeir setja á síðuna. Um 70 milljónir myndbanda eru skoðuð á síðunni á hverjum sólarhring.
Hurley, sem varð þrítugur nýlega, er einn af yngstu þátttakendunum á ráðstefnunni í Davos. Hann kom fram í pallborði ásamt Bill Gates, stjórnarformanni Microsoft, og Flickr Caterina Fake, stofnanda ljósmyndavefjarins Flickr. Yahoo hefur keypt Flickr, sem hefur vaxið mjög hratt.
Þátttakendurnir í pallborðinu ræddu m.a. um framtíð vefjarins. Þeir ræddu einnig um þær hættur, sem stafa af því að ljósmyndir og myndbönd úr farsímum eru sett inn á netið nánast stjórnlaust, svo sem myndbandið sem sýndi aftöku Saddams Husseins, fyrrum forseta Íraks. Slíkar myndir geta valdið uppnámi og óeirðum og nánast ómögulegt er að koma böndum á þessa fjölmiðlun.