Hagnaður Kaupþings til hluthafa á fjórða ársfjórðungi nam 18,1 milljörðum króna en það er langt yfir spá Greiningar Glitnis, sem spáði því að hagnaðurinn næmi 11,9 milljörðum króna, og annarra spáaðila.
Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að hreinar vaxtatekjur Kaupþings námu 14,8 mö.kr. og jukust því umtalsvert þvert á spár en í ljósi svo til engrar verðbólgu á Íslandi á fjórðungnum mátti reikna með óverulegri hækkun hreinna vaxtatekna frá þriðja fjórðungi.
„Útlán til viðskiptavina jukust hins vegar um heil 17% frá þriðja fjórðungi og munar um minna. Hreinar þóknunartekjur námu 11,9 mö.kr. og hafa aldrei verið hærri. Engin einstök stór verkefni eða atburðir skýra mikla aukningu heldur er góður vöxtur þessa tekjuliðs á öllum afkomusviðum bankans. Gengishagnaður Kaupþings á fjórða ársfjórðungi nam 11,9 mö.kr. og skýrist einkum af hagnaði vegna stöðutöku á Norðurlöndum.
Heilt yfir er því uppgjör bankans mun betra en spáð og að auki nam skatthlutfallið einungis 8,8% á fjórðungnum vegna áhrifa gengishagnaðar en Greining hafði áður reiknað með þessum áhrifum á þriðja ársfjórðungi. Útlit er fyrir mikinn vöxt á árinu og kom fram í máli forstjóra bankans á kynningarfundi að 20% vöxtur sé fyrirsjáanlegur á milli ára. Þá má telja afar líklegt að Kaupþing blandi sér í samþjöppun innan fjármálageirans á Norðurlöndum og í Evrópu með ytri vexti á þessu ári.
Undirliggjandi rekstur er sterkur og eru fjárfestingar í þóknanatengdri starfsemi í Danmörku og Bretlandi að fara að skila sér á árinu. Þá hafa fyrirtækjaskattar verið lækkaðir í Danmörku úr 28% í 22% sem mun skila meiri hagnaði en ella á árinu," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.