Samanlagður hagnaður viðskiptabankanna þriggja: Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, nam 163,7 milljörðum króna á síðasta ári. Er þetta aukning um 70,5 milljarða króna á milli ára en árið 2005 nam samanlagður hagnaður þeirra 93,2 milljörðum króna. Heildareignir bankanna þriggja eru 8.474 milljarðar króna.
Í fyrra skilaði Landsbankinn 40,2 milljörðum króna í hagnað samanborið við 25 milljarða árið 2005. Hagnaður Kaupþings nam 85,3 milljörðum króna 2006 samanborið við 49,3 milljarða árið 2005. Hagnaður Glitnis nam 38,2 milljörðum króna árið 2006 samanborið við 18,9 milljarða árið 2005.
Heildareignir Landsbankans námu um síðustu áramót 2.173 milljörðum króna, Kaupþings 4.055 milljörðum króna og Glitnis 2.246 milljörðum króna.