Bankarnir veittu alls 305 íbúðalán fyrir samtals tæpa 2,7 mklljarða króna í janúarmánuði og hafa lánin ekki verið jafn fá og heildarfjárhæðin jafn lág frá því bankarnir hófu upphaflega að veita íbúðalán í ágúst 2004. Fram kemur í Vegvísi Landsbankans, að meðallánið hafi numið 8,7 milljónum í janúar, sem sé mun lægri upphæð en verið hafi. Þannig var meðallánið 9,2 milljónir á seinni helmingi síðasta árs.
Ný íbúðalán drógust mikið saman síðastliðið haust en jukust aftur í október, nóvember og desember. Sú þróun hélt ekki áfram í janúar og segir Greininardeild Landsbankans ólíklegt að eftirspurn eftir íbúðarlánum aukist að ráði fyrr en verðtryggðir vextir lækka.