Fundi fjármálaráðherra og seðlabankastjóra sjö helstu iðnríkja heims lauk í dag í Essen í Þýskalandi. Í lokayfirlýsingu fundarins segir m.a., að meira jafnvægi sé nú í efnahagsmálum heimsins en áður og stærstu hagkerfin standi traustum fótum.
„Alþjóðlegur hagvöxtur er í meira jafnvægi," segir í lokaskjalinu. „Okkar hagkerfi standa sig vel." Í skjalinu er einnig lýst áhyggjum af gengisflökti gjaldmiðla, vaxandi áhrifum vogunarsjóða og minnkandi framboði á orku.
Þá hrósa fjármálaráðherrarnir og seðlabankastjórarnir Kínverjum fyrir að taka fast á efnahagsmálum en hvetja jafnframt til gengisaðlögunar kínverska gjaldmiðilsins.
Þegar samtök iðnríkjanna sjö, Bretlands, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japans og Bandaríkjanna, var stofnað fyrir þremur áratugum var Kína einangrað og lokað kommúnistaríki. Kínverjar hafa nú æ meiri áhrif á efnahagsmál heimsins.