Bandarísk stjórnvöld ætla í næstu viku að gera þriðju tilraunina með að setja eins dollara mynt í umferð, en samkvæmt skoðanakönnun nýverið eru þrír af hverjum fjórum Bandaríkjamönnum andvígir því að dollaramynt komi í staðinn fyrir eins dollara seðil. Á nýju myntinni verða myndir af forsetum Bandaríkjanna.
Á fyrstu peningunum, sem sett verður í umferð á fimmtudaginn, er mynd af George Washington, en eftir þrjá mánuði fara í dreifingu peningar með mynd af John Adams, síðan Thomas Jefferson og James Madison.
Samkvæmt skoðanakönnun sem Ipsos gerði fyrir AP er um helmingur Bandaríkjamanna til í að bæði dollaramynt og dollaraseðlar verði í umferð.
Það myndi spara hundruð milljóna í prentkostnað á ári að leggja niður dollaraseðilinn og taka upp myntina í staðinn, en ekki eru þó uppi nein áform um slíkt.
Fyrst var gerð tilraun með eins dollara mynt fyrir aldarfjórðungi, og síðan árið 2000. Hún hlaut afar dræmar undirtektir.