Gengi hlutabréfa bandaríska álfélagsins Alcoa Inc. hækkaði um rúmlega 6% í kauphöllinni á Wall Street í dag vegna fréttar, sem birtist í breska blaðinu The Times um að áströlsku fyrirtækin BHP Billiton Ltd., stærsta námufyrirtæki heims og Rio Tinto PLC, stærsti járnblendiframleiðandi heims, væru að undirbúa yfirtökutilboð í Alcoa.
Blaðið hafði ónafngreinda heimildarmenn fyrir frétt sinni en ýmsir sérfræðingar lýstu í dag yfir efasemdum um að yfirtökusamningur væri líklegur. Að sögn The Times undirbúa fyrirtækin tvö að bjóða 40 milljarða dala, jafnvirði rúmlega 2700 milljarða króna.
Gengi bréfa Alcoa hækkaði um 2,10 dali eða 6,38% á Wall Street. Lokagengið var 35 dalir en um tíma í dag komst gengi bréfanna í 36,05 dali.
Embættismenn námufyrirtækjanna beggja neituðu að tjá sig um fréttina og það sama gerði Kevin Lowery, talsmaður Alcoa. Sagði hann, að fyrirtækið tjáði sig ekki um orðróm og vangaveltur markaðsaðila.