OECD vill minni stuðning við landbúnað en meiri við menntun

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, gaf í gær út ábendingar til íslenskra yfirvalda um aðgerðir sem ættu að hennar mati að bæta aðstæður í íslenska hagkerfinu og styðja við frekari vöxt horft fram á veginn. Er þar m.a. lagt til að dregið verði úr stuðningi við landbúnað en í staðinn verði stuðningur við menntun aukinn.

Fjallað er um tillögurnar í ½5 fréttum Kaupþings í dag. Þar kemur fram, að í OECD telji mikilvægt að draga úr stuðningi við landbúnað á Íslandi. Stuðningur við framleiðendur sé nú um helmingi hærri en að meðaltali meðal OECD landanna og að sama skapi sé verð á landbúnaðarvörum um þrisvar sinnum hærra hér á landi en á heimsmarkaði. Þetta leggi að öllu jöfnu miklar byrðar á neytendur sem og skattgreiðendur í heild sinni.

Í öðru lagi bendir OECD á að enn sé stór hluti vinnuafls hér á landi aðeins með grunnskólamenntun. Leggur stofnunin meðal annars til, að framhaldskólinn verði styttur en það ásamt öðrum aðgerðum muni hjálpa til við að bæta menntunarstig þjóðarinnar.

Í þriðja lagi leggur OECD til að hömlum á eignarétt erlendra aðila í sjávarútvegi og orkuiðnaði verði aflétt. Til viðbótar leggur stofnunin til að Landsvirkjun verði einkavædd og þannig verði dregið úr ríkisafskiptum í orkuiðnaði.

OECD bendir einnig á nauðsyn þess að dregið verði úr bjögun á íbúðalánamarkaði sem komi til vegna ríkisábyrgðar Íbúðalánasjóðs. Leggur OECD til, að sjóðurinn þurfi að greiða sérstakt gjald fyrir notkun ríkisábyrgðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK