Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tók undir orð Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingu um að á Íslandi væru vextir óeðlilega og hættulega háir. Þetta kom fram í fyrirspurnatíma á Alþingi þar sem Jóhanna hóf umræðu um hvort hefja eigi rannsókn á bankakostnaði og samkeppnishindrunum.
Jóhanna Sigurðardóttir, spurði iðnaðar- og viðskiptaráðherra að því í fyrirspurnartíma á Alþingi hvort beina eigi því til Samkeppnisstofnunar hvort bankarnir hafi með sér samráð og hvort markaðsráðandi staða bankanna brjóti gegn samkeppnislögum.
Jafnframt spurði Jóhanna hvort það eigi að afnema stimpilgjöld og sagðist hún telja eðlilegt að flytja Reiknistofu bankanna undir Seðlabankann.
Jón segir Fjármálaeftirlitið og Samkeppnisstofnanir óháðar stofnanir og því geti viðskiptaráðuneytið ekki beint slíkum tilmælum til þeirra. Segir Jón að samkvæmt nýrri norrænni könnun sé nauðsynlegt að vera vel á verði gagnvart samkeppnisstöðu bankanna. Jón segir að nú liggi fyrir frumvarp til laga til þess að styrkja heimildir Samkeppniseftirlitsins.
Viðskiptaráðherra segist áfram fylgjast með bankamarkaði en hann muni ekki grípa inn að svo stöddu. Að sögn Jóns eru stimpilgjöld á hendi fjármálaráðherra en hann telji full þörf á að skoða það heildstætt hvort afnema eigi stimpilgjöld.
Fákeppni á íslenskum bankamarkaði
Ásta Möller, Sjálfstæðisflokki, segir að það ríki fákeppni á bankamarkaði á Íslandi. Vísaði hún í norræna könnun um stöðu á bankamarkaði þar sem fram kemur að aukin samkeppni milli banka geti komið sér vel fyrir almenning. Segir hún að einkavæðing bankanna hafi verið mikið heillaspor og þeir skili miklu til ríkissjóðs. Hins vegar sé engum blöðum að fletta að fólki blöskrar himinhá þjónustugjöld og vextir. Því þrátt fyrir góða afkomu þá virðist sem viðskiptavinirnir fái ekki að njóta þess.
Kristinn Gunnarsson Frjálslyndum, sagði í umræðum á Alþingi að bankarnir búi við einokun og geti skammtað sér tekjur í viðskiptum við viðskiptavini sína. Segir hann að skýrslur sýni það að raunvextir séu 2-4% hærri heldur en í nágrannalöndunum. Hvert venjulegt heimili greiði 2-5 hundruð þúsund meira í vexti á ári heldur en annars staðar í Evrópu.
Almenningur á rétt á skýringu
Ellert B. Schram, Samfylkingu, segir að almenningur eigi rétt á að fá skýringu á risastórum hagnaði bankanna. Hvaðan hann sé tilkominn.Um leið og við fögnum góðri afkomu bankanna þá megi ekki gleyma því að þjóðin er þolandi ekki gerandi.
Sæunn Stefánsdóttir, Framsóknarflokki, þakkaði Jóhönnu fyrir að hefja þessar umræðu. Tók hún sem dæmi um hagnað bankanna að samanlagður hagnaður þeirra sé um 50 milljörðum meiri heldur en útgjöld ríkisins til heilbrigðismála. Hún sagðist vera því sammála að áfram verði rekinn Íbúðalánasjóður sem geti veitt bönkunum aðhald. Hún sagðist vera þess fylgjandi að stimpilgjöld verði aflögð.
Minnir á hjónaband
Pétur Blöndal, Sjálfstæðisflokki, segir að trúnaður viðskiptavina við banka sé mjög mikill og minni helst á hjónaband. Því beini bankarnir sjónum sýnum að ungmennum með alls konar tilboðum. Meðal annars með yfirdráttarheimildum. Pétur benti á að meirihluti hagnaðar bankanna komi erlendis frá og því beri að fagna. Það verði að gæta þess að þessi alþjóðlegu fyrirtæki flytji ekki lögheimili sín úr landi.
Jóhanna Sigurðardóttir, sagði í umræðum að vextir og vaxtakostnaður á Íslandi sé glæpsamlega hár. Jóhanna kallaði eftir því hvort viðskiptaráðherra sé ekki sammála því að það verði að rannsaka starfsemi bankanna.
Jón Sigurðsson segist að sjálfsögðu fara frekar að lögum heldur en hvatningarorðum úr þingsal. Hann sagði að Framsóknarflokkurinn væri því andvígur að Íbúðalánasjóður verði einkavæddur og slíkt standi ekki til. Tók ráðherra undir orð Jóhönnu um óeðlilega og hættulega háa vexti á Íslandi.