Danski leikfangaframleiðandinn Lego tilkynnti í dag, að hagnaður af rekstri fyrirtækisins á síðasta ári hefði numið 1,43 milljörðum danskra króna. Er þetta annað árið í röð sem hagnaður er af rekstrinum en rekstur Lego var tekinn til gagngerrar endurskoðunar vegna tapreksturs í byrjun áratugarins.
Sölutekjur námu 7,82 milljörðum danskra króna og jukust um 11%, aðallega vegna þess að klassískar vörur á borð við Lego City, Lego Duplo og Lego Technic, sem settar voru á markað að nýju, reyndust eftirsóttari en búist var við.
Lego var stofnað árið 1932. Frá þeim tíma hefur aðeins verið tap á rekstrinum í fjögur ár en þau voru öll á síðasta áratug: 1998, 2000, 2003 og 2004. Ástæðan var einkum aukin samkeppni frá hátæknileikföngum. Lego reyndi að mæta því með því að framleiða eigin tölvuspil og tölvuleiki en þessar vörur reyndust ekki nægilega söluvænar.
Árið 2005 ákvað Kjeld Kirk Kristiansen, eigandi Lego, að fækka starfsfólki og selja ýmsa starfsemi frá því, þar á meðal skemmtigarðana Legoland. Þess í stað einbeitti fyrirtækið sér að plastkubbunum, sem það er þekktast fyrir.