Skuldir heimilanna við innlánsstofnanir, þ.e. viðskiptabanka og sparisjóði, námu í lok janúar síðastliðnum 716 milljörðum króna samkvæmt gögnum sem Seðlabankinn sendi frá sér í gær.
Mest er hér um að ræða íbúðalánin sem byrjað var að veita í lok ágúst 2004. Þessi íbúðalán námu 389 mö.kr. í lok janúar og jukust um 2,6 ma.kr. í mánuðinum, samkvæmt Morgunkorni Glitnis.
„Nær helming aukningarinnar í mánuðinum má skýra með verðbótum en til viðbótar koma vextir. Bankarnir hafa ekki veitt jafn lítið af íbúðalánum í einum mánuði frá því að þeir fóru inn á þann markað í ágúst 2004. Í heild námu verðtryggðar skuldir heimilanna við banka 521 ma.kr. í lok janúar og hækkuðu því um 7,1 ma.kr. í mánuðinum.
Talsverð umræða hefur verið um gengisbundin lán undanfarið þar sem mikið hefur verið gert úr þeim kosti þeirra að bera lága vexti. Þrátt fyrir kostina er ekki nema lítill hluti af skuldum heimilanna í þessu formi. Í lok janúar voru gengisbundin lán heimilanna 69 ma.kr. og lækkuðu þau um ríflega 4 ma.kr. í janúar. Hreyfingin skýrist nær alfarið af hækkun gengis krónunnar í mánuðinum sem var umtalsverð," samkvæmt Morgunkorni.
Yfirdráttarlánin aukast
Yfirdráttarlán heimilanna eru viðlíka stór og gengisbundin lán þeirra. Í lok janúar námu þau 72 mö.kr. og hækkuðu um tæplega 5 ma.kr. í mánuðinum. Yfirdráttarlánin hafa ekki verið hærri frá því í lok febrúar fyrir rétt tæplega fyrir ári síðan, að því er segir í Morgunkorni Glitnis. Aftur er hér um að ræða tiltölulega lítinn hluta af heildarskuldum heimilanna. Hins vegar eru þetta lán sem bera almennt afar háa vexti eða 20% til 24%. Þessir háu vextir markast að sjálfsögðu af þeim háu skammtímavöxtum sem almennt eru á markaði en grunnur þeirra eru stýrivextir Seðlabankans sem eru nú 14,25%.
„Heildarskuldir heimilanna við lánakerfið allt námu í lok september á síðasta ári 1.270 mö.kr. Af því voru skuldir við ofangreindar innlánsstofnanir 670 ma.kr. eða um 53% af heildinni. Það hlutfall hefur eflaust hækkað nokkuð síðan. Til viðbótar skulduðu heimilin lífeyrissjóðunum þá um 107 ma.kr., Lánasjóði íslenskra námsmanna 78 ma.kr. og ýmsum lánafyrirtækjum sem mestmegnis er Íbúðalánasjóður 408 ma.kr. Skuldir heimilanna höfðu þá aukist um 186 ma.kr. á árinu. Að okkar mati jukust eignir heimilanna mun meira á sama tíma og hrein eignastaða heimilanna batnaði því," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.