„Félagsmálaráðherra lék mikinn afleik með því að hækka á ný lánshlutfall og fjárhæðamörk hjá Íbúðalánasjóði. Við gerð kjarasamninga þann 22. júní sl. lögðu Samtök atvinnulífsins mikla áherslu á lækkun lánshlutfallsins til þess að stemma stigu við síhækkandi íbúðaverði og tryggja lækkun verðbólgunnar," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Hækkun lánshlutfalls í 90% og hámarksláns í 18 milljónir gengur þvert á ákvörðun ríkisstjórnarinnar í kjölfar kjarasamninganna og á eftir virka sem verðbólgufóður engum til gagns, að því er segir í leiðara Fréttabréfs SA.
„Þessi ráðstöfun er þeim mun bagalegri þar sem nú í dag hinn 1. mars tekur gildi lækkun virðisaukaskatts á matvæli og fleiri vörur auk tollalækkana á búvörum og niðurfellingar ýmissa vörugjalda á matvæli. Verð á matvælum, veitingaþjónustu og nokkrum öðrum vörum lækkar af þeim sökum. Þessar aðgerðir eru að lang mestu leyti skref í rétta átt til þess að bæta skattkerfið og lækka þar að auki útgjöld heimilanna. Þær koma fram í lægri verðbólgumælingu nú en hafa þó ekki áhrif á verðbólguna til lengdar þótt aukin eftirspurn geti falið í sér ákveðna verðbólguhættu en það sama má reyndar segja um allar skattalækkanir," samkvæmt leiðaranum.