Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að starfsmenn Samkeppniseftirlitsins hafi gert húsleit á þremur stöðum, hjá fimm aðilum í morgun: Skrifstofu Samtaka ferðaþjónustunnar, Heimsferða, Terra Nova, Plúsferðum og Úrval Útsýn. Segir Páll að um hefðbundið eftirlit af hálfu Samkeppniseftirlitsins sé að ræða.
Að sögn Páls Gunnars fékk Samkeppniseftirlitið húsleitarheimild frá Héraðsdómi Reykjavíkur en samkvæmt úrskurðinum er til rannsóknar hvort samráð hafi átt sér stað milli ferðaskrifstofa innan Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) sem hafi hamlandi áhrif á samkeppni.
Að öðru leyti geti hann ekki tjáð sig um hvað lá að baki ósk Samkeppniseftirlitsins um að fara fram á húsleitarheimild hjá þessum ferðaskrifstofum.
Páll Gunnar segir að nú verði unnið úr þeim gögnum sem Samkeppniseftirlitið hafi fengið frá þeim sem leitað var hjá og málið rannsakað áfram.