Í yfirlýsingu frá Samtökum fjármálafyrirtækja kemur fram að það valdi vonbrigðum að Íbúðalánasjóður hafi ákveðið að hækka hámarks veðhlutfall lána í 90% og hámarksfjárhæð í 18 milljónir kr., sem er þensluhvetjandi aðgerð, á sama tíma og stýrivextir á Íslandi eru tímabundið langt yfir því sem þekkist í nágrannalöndunum. Yfirlýst markmið Seðlabanka Íslands er að viðhalda svo háum stýrivöxtum nú um stundir til að sporna gegn verðbólgu í landinu. Þessi aðgerð Íbúðalánasjóðs vinnur því gegn peningamálastefnu Seðlabanka Íslands.
„Forsætisráðherra Íslands gaf síðastliðið vor út yfirlýsingu um að ráðist yrði í breytingar á húsnæðislánafyrirkomulagi á Íslandi fljótlega til að bregðast við harðri gagnrýni sem íslenska ríkið hefur sætt vegna þessa undanfarin misseri af alþjóðastofnunum og greiningaraðilum. Sú gagnrýni hefur lotið að því að íslenska ríkið sé með beinum hætti virkur þátttakandi á hinum almenna húsnæðislánamarkaði, gegnum Íbúðalánasjóð sem nýtur bæði ríkisábyrgðar og skattahagræðis. Það hefur dregið úr trúverðugleika íslenskra stjórnvalda að þau hafa í engu staðið við opinberar yfirlýsingar í þessum efnum. Þetta nýjasta útspil Íbúðalánasjóðs sýnir glögglega að öfugt við áform um að draga ríkið út af þessum markaði, hafa stjórnvöld ákveðið að auka enn frekar ríkisafskipti á honum og horfa fram hjá hlutverki Seðlabanka Íslands í peningamálastefnu landsins.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) er nú að rannsaka stöðu Íbúðalánasjóðs og hugsanlegan ólögmætan ríkisstuðning sjóðsins. ESA hafði á árinu 2004 kveðið upp úrskurð um að starfsemi sjóðsins fæli í sér ríkisstyrk sem nyti undanþágu þar sem um almannahagsmuni væri að ræða. EFTA-dómstóllinn ógilti þá niðurstöðu í fyrra og sendi málið aftur til ESA til skoðunar. Samtök fjármálafyrirtækja telja að niðurstaða ESA muni sýna fram á að ríkið hafi nú í mörg ár verið að halda úti ólögmætri samkeppni á þessum vettvangi. Ríkið hefur félagslegu hlutverki að sinna, gagnvart því fólki sem ekki hefur ráð á að koma sér þaki yfir höfuðið. Það er óeðlilegt að ríkið nýti sér það hlutverk til að halda úti ríkisstyrktum samkeppnisrekstri á almennum markaði," að því er segir í yfirlýsingu Samtaka fjármálafyrirtækja.