Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir að ekkert samráð hafi átt sér stað milli ferðaskrifstofa innan samtakanna en í dag hafa starfsmenn Samkeppniseftirlitsins leitað hjá ferðaskrifstofum innan samtakanna. Meðal annars hefur verið farið inn á skrifstofur Heimsferða, Terra Nova, Plúsferða og Úrvals Útsýn. Jafnframt komu starfsmenn Samkeppniseftirlitsins á skrifstofu SAF.
Samkvæmt úrskurðinum er til rannsóknar hvort samráð hafi átt sér stað milli ferðaskrifstofa innan Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) sem hafi hamlandi áhrif á samkeppni.
Að sögn Ernu hefur að sjálfsögðu ekkert samráð átt sér stað en starfsmenn SAF og ferðaskrifstofa aðstoða nú starfsmenn Samkeppniseftirlitsins við störf sín.
Segir Erna að gríðarleg samkeppni ríki í ferðaskrifstofugeiranum og því fráleitt að telja að þessir aðilar hafi haft með sér samráð.
Þorsteinn Guðjónsson forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, sem er eigandi og rekstraraðili ferðaskrifstofanna Úrval-Útsýn, Viðskiptaferða ÚÚ, Plúsferða og Sumarferða, segir að starfsmenn Samkeppniseftirlitsins hafi komið á skrifstofur Úrvals Útsýnar og Plúsferða og fengið gögn. Að sögn Þorsteins virðist þetta vera arfleið frá fyrri eigendum þar sem núverandi eigendur Ferðaskrifstofu Íslands hafi aldrei verið aðilar að SAF. En að sögn Þorsteins beinist rannsókn málsins að ferðaskrifstofum innan SAF.
Samkvæmt vef SAF eru á fjórða tug ferðaskrifstofa aðilar að Samtökum ferðaþjónustunnar.