Afkoma 365, áður Dagsbrúnar versnaði um 7.661 milljón króna á síðasta ári. Nam tap félagsins 6.943 milljónum króna árið 2006 samanborið við 718 milljónir í hagnað árið 2005. Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 1.566 milljónir króna í árslok 2006 samanborið við að það var jákvætt um 66 milljónir króna ári áður.
Sérstök varúðarniðurfærsla og afkomuhlutdeild í niðurlagðri starfsemi nemur 5.933 m.kr., að því er segir í tilkynningu.
„Fjölmiðla- og afþreyingarfélagið 365 hf. skilaði árssölu að upphæð 11.096 m.kr. og EBITDA hagnaður ársins nam 1.552 m.kr. Tap ársins nam 6.943 m.kr. en sé horft á áframhaldandi starfsemi félagsins þá nam tap ársins 1.227 m.kr., samkvæmt tilkynningu. Í því samhengi er þó rétt að geta að tap af rekstri eininga sem hafa verið aflagðar s.s. NFS, DV og tímaritaútgáfu fellur undir reglulega starfsemi á árinu 2006.
Á fjórða ársfjórðungi nam tap félagsins 2.246 m.kr. eftir skatta, en hagnaður að upphæð 255 m.kr. var af áframhaldandi starfsemi. Sala á tímabilinu nam 3.595 m.kr. og EBITDA hagnaður nam 1.362 m.kr," samkvæmt tilkynningu.
Tímabilið október til desember 2006 er fyrsta tímabilið sem 365 hf. birtir afkomu eftir skiptingu Dagsbrúnar hf í 365 hf og Teymi hf, en rekstrarlegur aðskilnaður átti sér stað 1. október 2006 eins og félagið tilkynnti 1. desember 2006. Starfssemi sú sem ekki er hluti af núverandi rekstri félagsins er sett fram sem aflögð starfssemi í ársreikningnum. Megin rekstrareiningar félagsins eru 365 miðlar ehf. Sena ehf. Sagafilm ehf. og D3 ehf. Þessi félög eru öll dótturfélög 365 hf.
Á fjórða ársfjórðungi lækkaði eignarhlutur félagsins í Daybreak Holdco í 36% eftir útgáfu hlutafjár í félaginu. Bókfært verð hlutarins nemur um 2.572 m. kr. eftir hlutdeild í tapi og varúðar niðurfærslu að upphæð 2.500 m.kr. á fjórða ársfjórðungi. Hlutdeild í tapi Hands Holding hf þ.m.t. afskrift viðskiptavildar og sérstök niðurfærsla nam 377 m.kr. á fjórða ársfjórðungi. Í lok árs var 365 hf skráð fyrir 30,7% hlut í Hands holding hf og er bókfærður eignarhlutur 1.649 m.kr. Stjórnendur félagsins hafa ákveðið að taka niður eignarhlutinn í Pósthúsinu ehf. að fullu eftir að hafa tekið inn hlutdeild í tapi og afskrift viðskiptavildar. Neikvæð áhrif á rekstrarreikning nema því 375 m.kr. Með þessum aðgerðum telja stjórnendur að ýtrustu varkárni sé gætt, samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu.
Eigið fé var 6.137 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 32,7%.
Forstjórinn segir afkomuna óásættanlega
Ari Edwald forstjóri 365 segir í tilkynningu að þetta sé óásættanleg niðurstaða.
„Síðasta ár hefur verið tími mikilla umbreytinga hjá 365 hf og forvera þess Dagsbrún hf. Vinna við þessar breytingar hefur verið tímafrek og kostnaðarsöm, auk þess sem 365 hf hefur þurft að taka á sig miklar afskriftir vegna endurmats á virði þeirra fjárfestinga sem ráðist var í, en eru utan framtíðarreksturs 365 hf. Ljóst er að rekstrarniðurstaða félagsins er óásættanleg.
Að því er varðar núverandi rekstur 365 hf er það fyrst og fremst innan 365 miðla sem þurft hefur að taka til hendinni til að koma rekstrinum í gott horf. Á fjórða ársfjórðungi seldu 365 miðlar útgáfuréttinn að DV inn í nýtt útgáfufélag og seldu eða lögðu niður 5 tímarit. Fréttablaðið og fylgirit þess, m.a. Markaðurinn, eru nú einu prentmiðlarnir sem 365 miðlar gefa út. Á þriðja ársfjórðungi var útsendingum fréttastofunnar NFS hætt en Fréttastofa Stöðvar 2 og vefmiðillinn Vísir efld þess í stað. Þessar breytingar eru í samræmi við þá stefnumörkun 365 miðla að efla kjarnastarsemi á sviði dagblaðaútgáfu, sjónvarps, útvarps og vefmiðlunar og stefna að forystuhlutverki á þeim sviðum miðlunar þar sem 365 starfar og að allar rekstrareiningar nema tímabundin þróunarverkefni, skili viðunandi arðsemi.”
Vaxandi kostnaður við dreifingu Fréttablaðsins
„Stjórnendur meta rekstrarhorfur 365 hf nokkuð góðar á árinu 2007. Þær aðgerðir sem gripið var til seinni parts ársins 2006 hjá 365 miðlum ehf m.a. lokun NFS, sala á DV og tímaritum eru til þess fallnar að ná fram hagræðingu í rekstri og efla kjarnastarfsemi félagsins.
Þessar ráðstafanir leggja grunn að viðsnúningi í rekstri á árinu 2007, samkvæmt tilkynningu.
Stjórnendur standa frammi fyrir ákveðnum áskorunum í rekstri. Til að mynda hefur kostnaður við dreifingu Fréttablaðsins farið vaxandi á undanförnum misserum og líklegt að sá kostnaður eigi eftir að þyngjast eitthvað áfram, unnið er að hagræðingu á því sviði. Í upphafi árs hafa orðið nokkrar sveiflur á auglýsingamarkaði, þannig hefur dregið úr sölu á auglýsingamarkaði prentmiðla en aukist hjá ljósvakamiðlum. Ágætur gangur hefur verið í öðrum einingum innan 365 hf og engar sveiflur gert vart við sig viðlíkar þeim sem orðið hafa í rekstri fjölmiðla," að því er segir í tilkynningu.
Stjórnendur leggja mikla áherslu á að lækka skuldir félagsins sem nú nema rúmlega 8 milljörðum. Sala á eignarhlutum í hlutdeildarfélögum er liður í því en bókfært verð þeirra er um 4,8 milljarðar kr.
Ekki þykir að svo stöddu ástæða til að endurskoða áætlanir um veltu og EBITDA hagnað fyrir árið 2007.
Samkvæmt upplýsingum úr uppgjöri 365 námu laun og greiðslur til Ara Edwald, forstjóra 365, 35,2 milljónum króna á síðasta ári. Árni Pétur Jónsson, fyrrverandi forstjóri Dagsbrúnar og núverandi forstjóri Teymis, var með 17 milljónir í laun og greiðslur frá félaginu. Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi forstjóri Dagsbrúnar var með 42,3 milljónir króna og Paul Utting, forstjóri Wyndeham fékk 220,9 milljón króna í laun og aðrar greiðslur frá félaginu.