Þúsundir flugfarþega eru strandaglópar vegna ákvörðunar stjórnar sænska lággjaldaflugfélagsins FlyMe um að óska eftir því að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Öllum flugum félagsins hefur verið aflýst en 2.500 manns áttu bókað flug með FlyMe í dag.
Fólk sem þegar hafði keypt miða með FlyMe fékk send SMS skilaboð klukkan 01:30 í nótt um að félagið væri hætt starfsemi. Torbjörn Vading, sem átti pantað far með FlyMe, segir í samtali við sænsku fréttastofuna TT að þegar hann mætti á Arlandaflugvöll í Stokkhólmi í morgun var honum sagt að flugi hans til Gautaborgar hafi verið aflýst.
„Ég hafði ekki hugmynd um þetta fyrr en ég mætti við innritunarborðið," að sögn Vading.
Klukkan níu í morgun að sænskum tíma hafði FlyMe ekki upplýst 220 starfsmenn félagsins um að stjórn félagsins hefði tekið ákvörðun um að fella allt flug niður.
Lággjaldaflugfélagið Sterling greindi frá því í morgun að það myndi strax hefja flug milli Malmö og Stokkhólms og Stokkhólms og Gautaborgar. Öllum farþegum FlyMe hefur verið boðið að fljúga með Sterling og eins mun félagið leyfa farþegum FlyMe sem staddir eru erlendis að fljúga til baka með Sterling, það er frá þeim stöðum sem Sterling flýgur einnig á, þeim að kostnaðarlausu.
Er það dótturfélag FlyMe í Evrópu, FlyMe í Svíþjóð sem óskar eftir gjaldþrotaskiptum. FlyMe í Svíþjóð er skráð í Kauphöllinni í Stokkhólmi. Lokað var fyrir viðskipti með félagið í morgun. Í tilkynningu frá kauphöllinni kemur fram að nánar verði greint frá stöðu mála síðar í dag.
Eins og greint var frá á Fréttavef Morgunblaðsins í morgun átti Fons eignarhaldsfélag, sem er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, um 20% hlut í FlyMe en seldi hlut sinn í september á síðasta ári.
Sterling flugfélagið var í eigu FL Group þar til í lok síðasta árs er það seldi Northern Travel Holding Sterling á 20 milljarða króna. Northern Travel Holding er í 44% eigu eignarhaldsfélags Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, Fons, en FL Group á 34% og fjárfestingarfélagið Sund á 22%í Northern Travel Holding .