Markaðir hafa tekið vel við sér í dag eftir mikinn taugatitring og niðursveiflu undanfarna daga. Hækkanir urðu á markaðnum í Shanghai í morgun, og þegar við opnun í Kauphöll Íslands sást þess merki þar.
Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að íslenski markaðurinn gangi greinilega í takt við erlenda markaði, og að lækkunina sem orðið hafi á markaðnum hér undanfarið sé ekki hægt að rekja til neins nema lækkana á erlendum mörkuðum.
Í morgunkorni Glitnis í gær sagði að viðbrögð fjárfesta undanfarið hafi verið skólabókardæmi um flótta yfir í áhættuminni fjárfestingar, þegar þeir selji hlutabréf og kaupi skuldabréf í staðinn. Þetta sé svokallaður „öryggisflótti“.