Bandaríska fjárfestingarfyrirtækið Providence Equity Partners er nú talið líklegast til þess að hreppa 65% hlut Novator í búlgarska símafyrirtækinu BTC. Novator, sem er eignarhaldsfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur gefið út að hluturinn sé til sölu og hafa margir sýnt því áhuga að kaupa hann. Meðal þeirra má nefna tyrknesku símafyrirtækin Turk Telekom og Turkcell.
Samkvæmt frétt á vefnum broadbandtvnews.com er talið að Providence hafi boðið um 1,9 milljarða evra í hlut Novator en það jafngildir um 171 milljarði króna og felur í sér að heildarverðmæti fyrirtækisins sé um 263 milljarðar króna. Til samanburðar má geta þess að markaðsvirði Kaupþings, verðmætasta fyrirtækis Íslands, er um 718 milljarðar.
Hlutur Novator í BTC kostaði um 20 milljarða króna á sínum tíma og sé tilboð Providence jafnhátt og hermt er mun söluhagnaður nema um 151 milljarði.