Viðskiptajöfnuður var óhagstæður um 91 milljarða króna á síðasta ársfjórðungi 2006, samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum. Á árinu 2006 í heild var hann óhagstæður um 305,4 milljarða króna samanborið við 164,8 milljarða árið áður. Svarar þetta til 27,5% af vergri landsframleiðslu en til samanburðar var hallinn um 16,2% af vergri landsframleiðslu árið 2005.
Halli var á öllum liðum viðskiptajafnaðar, vöru, þjónustu, þáttatekna og rekstrarframlaga, hvort sem litið er til fjórða ársfjórðungs eða ársins í heild.
Þáttateknahallinn jókst mest á árinu, en gjöld meira en tvöfölduðust frá fyrra ári. Stærsta hluta þeirra má rekja til aukinna vaxtagjalda. Einnig veldur mikill hagnaður innlendra fyrirtækja í eigu erlendra aðila töluverðu þar um, því hann er færður til gjalda í jöfnuði þáttatekna og endurfjárfestur á sama tíma í fyrirtækjunum og færist þá sem bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi.
Hreint fjárinnstreymi nam 405,7 milljörðum á árinu. Brúttóinnstreymi fjár nam 1796 milljörðum og brúttóútstreymi 1390 milljörðum. Beinar erlendar fjárfestingar hér á landi námu 226 milljörðum og beinar fjárfestingar Íslendinga í útlöndum 293 milljörðum. Að öðru leyti skýrist inn- og útstreymi fjár að verulegu leyti af lánahreyfingum íslenskra fjármálafyrirtækja.
Hrein staða við útlönd var neikvæð um 1355 milljarða í lok árs 2006 og hafði versnað um tæpa 500 milljarða á árinu. Erlendar eignir námu 4500 milljörðum í lok árs en skuldirnar voru 5855 milljarðar í árslok 2006.
Búist við minni halla í ár
Búist er við, að mjög dragi úr viðskiptahallanum í ár. Greiningardeild Kaupþings segir í ½5 fréttum sínum í dag, að gera megi ráð fyrir að viðskiptahalli verði í kringum 15% af vergri landsframleiðslu í ár þar sem halli á vöruskiptum við útlönd muni dragast verulega saman milli ára. Þá muni samdráttur í innflutningi tengdum yfirstandandi stóriðjuframkvæmdum koma fram á næstu mánuðum og raunar megi greina það strax í tölum um vöruskipti við útlönd í janúar. Á móti komi, að útflutningur aukist nokkuð mikið vegna aukins álútflutnings og hagstæðra viðskiptakjara.