Stjórn 365 hf. á fundi sínum í gær að nýta hluta heimildar til hækkunar hlutafjár að fjárhæð kr. 60.800.000. Heildarhlutafé fyrir hækkun var kr. 3.368.807.348 en verður 3.429.607.348 eftir hækkun.
365 hf. hefur keypt allt hlutafé Innn hf. af Fons Eignarhaldsfélagi hf. og greitt að fullu með framangreindum 60.800.000 hlutum í 365 hf.
Innn hf. ráðgjafa- og hugbúnaðarhús var stofnað 1997 og er eitt elsta fyrirtækið á Íslandi á sínu sviði, að því er segir í tilkynningu. Innn hefur frá upphafi sérhæft sig í veflausnum með þróun vefumsjónarkerfisins LiSA.
Velta ársins 2006 nam um 132 milljónum króna og EBITDA nam 27 milljónum króna. Áætlanir fyrir árið 2007 gera ráð fyrir að velta Innn hf. verði um 180 milljónir króna og EBITDA um 40 m.kr. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins eru engar. Félagið hefur verið rekið með hagnaði síðustu 3 árin.
Undir stjórn Sigrúnar Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra Innn hefur velta Innn vaxið að meðaltali um 40% á ári síðustu þrjú ár. Sigrún mun starfa áfram sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins og eru engar breytingar fyrirhugaðar á starfseminni, samkvæmt tilkynningu.