Verðbólga mæld á tólf mánaða tímabili var 1.730% í Zimbabwe í febrúar. Hefur verðbólgan í landinu aukist um 136% frá því í janúar er hún mældist 1.594%. Síðastliðin sjö ár hefur ríkt efnahagsleg og stjórnmálaleg kreppa í Zimbabwe.
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Zimbabwe skýrist hækkunin á milli mánaða aðallega af hækkun matvælaverðs og rafmagnskostnaðar.
Verðbólga hefur verið á rússibanareið í Zimbabwe frá því í desember 2004 er hún fór í 622,8%.
Á síðasta ári varaði Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn við því að verðbólgan í ár gæti farið í 4.279% í Zimbabwe.
Mikill skortur er á matvælum í Zimbabwe og er hætta talin á að hungursneyð vofi yfir stórum hluta íbúa landsins. Er gjaldeyrisskortur stjórnvalda í Zimbabwe helsta skýringin á matvælaskortinum þar sem ekki hefur verið hægt að flytja inn nema brot af þeim matvælum sem skortur er á í landinu.
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe, hefur verið harðlega gagnrýndur af mannréttindasamtökum víða um heim. Er hann sagður sekur um margvísleg mannréttindabrot og stríðsglæpi.