Trúverðusleiki Moody's hefur skaðast og jafnvel til frambúðar segir sérfræðingur Royal Bank of Scotland, Tom Jenkins, í fjármálafréttum bankans í dag. Vísar hann þar til þess að Moody's hefur tekið til endurskoðunar lánshæfiseinkunnir félagsins og þykir líklegt að einkunnir íslensku viðskiptabankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans, verði lækkaðar á ný.
Eins og fram kom á Fréttavef Morgunblaðsins þá greindi Moody's frá því á föstudagskvöldið að unnið sé að endurskoðun á nýlegum lánshæfiseinkunnum fyrirtækisins. Í síðasta mánuði hækkaði Moody's langtímalánshæfiseinkunnir íslensku bankanna þriggja í Aaa, sem er hæsta einkunn sem hægt er að fá hjá Moody's. Er þetta hærri einkunn heldur en bankar eins og ABN Ambro hafa hjá Moody's og vakti hækkunin mikla reiði meðal sérfræðinga hjá mörgum fjármálafyrirtækjum.
Nigel Myer, sérfræðingur hjá Dresdner bankanum í Lundúnum segir að með þessu sé Moody's að bregðast við gagnrýni við fyrra mat félagsins.
Að sögn Simon Adamson, sérfræðings hjá CreditSights eru margir reiðir út af þessari ákvörðun Moody's og segir Adamson að með þessu sé Moody's að reyna að komast upp úr holunni sem þeir grófu sjálfir. Þetta hafi áhrif á allan fjármálamarkaðinn. Í síðustu viku tók CreditSights lánshæfiseinkunnir Moody's út úr greiningum sínum með þeim orðum að lánshæfiseinkunnir Moody's væru verðlausar.
Samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingi UniCredit, Alexander Plenk, hefur það strax áhrif á skuldabréf íslensku bankanna að horfur séu á að lánshæfiseinkunn þeirra verði lækkuð innan tíðar. Þetta kemur fram á vef ungverska viðskiptaritsins BBJ.