Tvö af nýju dönsku fríblöðunum, 24timer og Nyhedsavisen, áforma að gera 2 til 5 vikna hlé á starfsemi sinni í sumar og reiknað er með að það þriðja, Dato, geri slíkt hið sama.
Þetta kemur fram í Berlingske Tidende í dag, og segir blaðið, að Danir losni þá við yfirfulla póstkassa af blöðum á meðan þeir eru í sumarfríi. Jafnframt spari blöðin milljónir danskra króna á því að loka en tap er á rekstri blaðanna allra.
Torsten Bjerre Rasmussen, framkvæmdastjóri JP/Politikens Hus, segir að áformað sé að gera hlé á útgáfu 24timer frá 7. júlí til 8. ágúst en endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin. Svenn Dam, stjórnarformaður Nyhedsavisen, segir að ekki sé komin dagsetning en hugsanlega verði 2-5 vikna hlé gert á útgáfunni. Hugsanlega verði blaðinu þó dreift á ákveðnum svæðum þar sem eftirspurn sé mest.
Þeir Rasmussen og Dam segja báðir, að ekki sé um að ræða sparnaðaraðgerð heldur hafi þetta verið áformað frá upphafi. Fólk vilji ekki koma úr fríi og sjá blaðahrúgu á gólfinu eða yfirfulla póstkassa.
Berlingske hefur eftir Torsten Lehrmann, framkvæmdastjóra hjá birtingarhúsinu Mediaedge:cia, að þetta sé eðlileg þróun enda sé eðli málsins samkvæmt lítið um að vera á auglýsingamarkaði yfir sumartímann. Hann bendir á, að áætla megi að 1-1,5 milljónir danskra króna kosti daglega að gefa hvert blaðanna þriggja út og þá hafi auglýsingatekjur verið dregnar frá. Ástandið verði mun verra í sumar þegar auglýsingum fækkar.
Hann bendir þó á, að lesendum Nyhedsavisen hafi fjölgað í febrúar um nærri 29% en hins vegar sé kostnaður við útgáfu blaðsins enn um 1,5 milljónir danskra króna á dag.