Íslensk skattalöggjöf standi jafnfætis þeirri bestu

Frá aðalfundi Exista nú síðdegis.
Frá aðalfundi Exista nú síðdegis. mbl.is/Kristinn

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, hvatti á aðalfundi félagsins í dag íslensk stjórnvöld til að gera íslenska skattalöggjöf þannig úr garði, að hún verði samkeppnishæf við þá bestu í Evrópu. Sagðist Lýður vilja, að löggjöfin þróaðist í þá átt sem nefnd um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi lagði til á síðasta ári.

Lýður sagði, að það hefði reynst Exista vel að hafa höfuðstöðvar á Íslandi og fyrirtækið væri ánægt með þá stefnu stjórnvalda, að laga skattalöggjöfina að löggjöf í nágrannaríkjunum. Fyrirtækið hvetji hins vegar stjórnvöld til að láta ekki þar við sitja. Sagði Lýður, að tillögur nefndarinnar, sem Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings, veitti forstöðu, hefðu verið afar áhugaverðar og myndu, yrði þær framkvæmdar, án efa styrkja samkeppnisstöðu Íslands í framtíðinni sem staðar þar sem alþjóðleg fyrirtæki vilji hafa höfuðstöðvar.

Lýður sagði, að þáttaskil hefðu orðið í rekstri Exista á síðasta ári og það hefði breyst úr því að vera fjárfestingarfélag í félag sem rekur víðtæka fjármálaþjónustu. Þá hefði hluthöfum fjölgað um 30 þúsund eftir að félagið var skráð í Kauphöll Íslands.

Vöxtur Exista vandlega skipulagður
Lýður sagði, að vöxtur Exista á síðustu fimm árum hefði verið vandlega skipulagður og hann og Ágúst bróðir hans hefðu tekið ákvarðanir varðandi félagið með langtímamarkmið í huga, eins og þeir gerðu ávallt í sínum fyrirtækjarekstri.

Lýður sagði þá bræður bíða eftir réttu tækifærunum og bregðast hratt við þegar rétti tíminn kæmi. Þannig hefðu þeir gert Bakkavör Group að einu helsta matvælaframleiðslufyrirtæki í Evrópu og þannig vilji þeir gera Exista eitt af leiðandi fjármálafyrirtækjum í Evrópu í framtíðinni.

Lýður sagði, að þeir hefðu skilgreint Norður-Evrópu sem aðalmarkaðssvæði fyrirtækisins og fjármálaþjónusta væri kjarnastarfsemi. Vísbendingar væru um, að umfangsmikil endurskipulagning muni eiga sér stað á norrænum fjármálamarkaði á næstu árum. Slík endurskipulagning fæli í sér mörg tækifæri og norrænar fjármálastofnanir standi á gömlum merg og hafi mikla vaxtarmöguleika. Sagðist Lýður telja að Exista eigi að taka þátt í þessari þróun, og hlutur félagsins í Kaupþingi og finnska tryggingafélaginu Sampo Group gerði það að verkum að það væri í öfundsverðri stöðu.

Fjölmiðlar í fárra höndum
Fram kom hjá Lýð, að auk hlutar í stórum fyrirtækjum ætti fyrirtækið minni hlut í ýmsum öðrum. Fyrirtækið legði áherslu á að viðkomandi fyrirtæki skiluðu arði en ein undantekning væri á því. Þannig hefði fyrirtækið nýlega keypt helmingshlut í eina viðskiptadagblaði Íslands, sem ekki væri sérlega arðbær rekstur. Félagið ætli sér þó ekki að tapa fé á þessari fjárfestingu og aðrir þættir kæmu einnig til. Á tiltölulega stuttum tíma hefðu fjölmiðlar á Íslandi að mestu lent í höndum tveggja fjölskyldna, sem réðu nánast allri fjölmiðlun á Íslandi ef Ríkisútvarpið væri undanskilið. Sagði Lýður að vegna þessa teldu þeir það vera skyldu sína, að halda að minnsta kosti litlum hluta af íslenskum fjölmiðlum utan þessara tveggja blokka. Því ættu dótturfélög Exista hlut í Skjá 1 og Viðskiptablaðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK