Skrifað var í dag undir kaup tveggja íslenskra fjárfesta á meirihluta hlutafjár í ferðaskrifstofunni Kilroy Travels International á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Kilroy er leiðandi ferðaskrifstofukeðja í Norður-Evrópu, sem rekur rætur sínar allt aftur til ársins 1946 þegar samtök norrænna stúdenta stofnuðu ferðaskrifstofu en í núverandi mynd hefur Kilroy verið starfandi síðan 1991.
Fyrirtækið íslensk fjárfesting ehf. sem er í eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar, eignaðist með kaupunum í dag 53% hlut í fyrirtækinu en þeir hafa auk þess kauprétt á 20% til viðbótar. Straumur-Burðarás fjárfestingabanki var ráðgjafi kaupanda og fjármagnaði kaupin að hluta. Kaupverð var ekki gefið upp.
Aðrir eigendur eru framkvæmdastjóri félagsins, lykilstjórnendur og finnska fjárfestingafélagið HYY Group, fyrrverandi aðaleigandi félagsins. Stjórnendateymi Kilroy verður óbreytt eftir kaupin en á hluthafafundi í dag var ákveðið að Arnar tæki sæti stjórnarformanns fyrirtækisins.
Á Norðurlöndum og í Hollandi rekur Kilroy 25 ferðaskrifstofur. Aðalmarkhópur fyrirtækisins hefur verið ungt fólk og stúdentar og sala á íþrótta-, tómstunda-, ævintýra- og tungumálaferðum hefur verið aðalsmerki fyrirtækisins. Kilroy velti ríflega 12 milljörðum króna á síðasta ári og starfsmenn eru um 300 talsins.