Segja lækkun Fitch á lánshæfismati ríkissjóðs ekki koma á óvart

Greiningardeildir Kaupþings og Landsbankans segja að búast hafi mátt við því, að matsfyrirtækið Fitch lækkaði lánshæfismat íslenska ríkisins í ljósi þróunar helstu hagstærða hérlendis og fyrri yfirlýsinga frá Fitch. Gengi krónunnar lækkaði um 1% og hlutabréfaverð íslensku bankanna lækkaði um 0,6-1,3% eftir að tilkynning Fitch birtist nú síðdegis.

Greiningardeild Kaupþings segir í ½5 fréttum sínum, að sennilega hafi lækkun lánshæfismatsins að miklu leyti komin inn í væntingar og fyrstu viðbrögð á mörkuðum kunni að hafa verið til marks um það. Helstu markaðir hafi tekið dálitla dýfu við birtingu yfirlýsingar Fitch um kl. 15:40 en lækkunin tók síðan að ganga til baka fram til lokunar klukkan 16.

Greiningardeild Landsbankans segir í Vegvísi sínum, að í ljósi þess hversu langt sé liðið frá því að Fitch breytti horfum um lánshæfismat ríkissjóðs úr stöðugum í neikvæðar, það gerðist í febrúar í fyrra, sé ekki hægt að segja að lækkun lánshæfismatsins komi gjaldeyrismarkaðnum á óvart. Íslenska krónan hafi hins vegar verið með sterkara móti undanfarið, þrátt fyrir metviðskiptahalla og hægari hjöðnun þenslunar en væntingar stóðu til síðastliðið haust.

Landsbankinn segir, að ytra ójafnvægi í hagkerfinu sé enn mjög mikið og áhyggjur erlendra greinenda og matsfyrirtækja því skiljanlegar. Tónninn hjá Fitch sé þó að mati greiningardeildar bankans of neikvæður þar sem reynslan sýni, að íslenska hagkerfið sé fjótt að rétta sig af þegar aðlögunin á annað borð fari í gang.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK