Formaður Samtaka iðnaðarins varar við því að fyrirtæki séu kosin burtu

Helgi Magnússon á Iðnþingi.
Helgi Magnússon á Iðnþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, gerði íbúakosningu í Hafnarfirði að umtalsefni í ræðu sinni á Iðnþingi í dag. Varaði hann við því að fyrirtæki séu kosin burtu frá landinu. Segir hann að Íslendingar nái ekki árangri með því að kjósa burt iðnfyrirtæki eða önnur atvinnufyrirtæki.

„Álverið í Straumsvík er bara eitt fyrirtæki – þótt stórt sé og mikilvægt. Verði það kosið burt, má búast við að fólki finnist við hæfi að kjósa burt önnur fyrirtæki sem þykja fyrirferðarmikil, gróf eða ljót í umhverfinu. Hvað þá um loðnuverksmiðjur, fiskiðjuver og fyrirtæki í þungum og grófum iðnaði?

Megum við þá ekki vænta þess að farið verði að kjósa þau í burtu hvert af öðru?

Það er eins og þetta vilji gleymast – t.d. þegar hvatt er til þess að kjósa burt fyrirtæki sem veita og veitt hafa atvinnu og skapað tekjur í áratugi – eins og við þekkjum dæmi um," sagði Helgi á Iðnþingi í dag.

Að sögn Helga þurfa Íslendingar sínu að halda ef viðhalda á því velferðarsamfélagi sem gerð er krafa um. „Til þess að standa undir þeirri samfélagsþjónustu, sem við hljótum að vilja, þurfum við tekjuöflun og verðmætasköpun.

Þá verðum við að nýta allar greinar atvinnulífsins til að skapa okkur verðmæti – jafnt til lands og sjávar. Við þurfum að virkja fallvötnin og jarðhitann. Við þurfum ekki síst að virkja hugvit fólksins og allir þættir og allar greinar þurfa að fá að njóta sín," sagði formaður Samtaka iðnaðarins.

Hann segir að hugmyndir um að hrekja arðsöm fyrirtæki á brott séu nýjar á Íslandi og velti því fyrir sér hvers vegna þær skjóti upp kollinum einmitt nú. Segir hann svarið við því augljóst.

„Það er vegna þess að nú um stundir er ekkert atvinnuleysi og velmegun er með mesta móti. Við slíkar aðstæður virðast ýmsir gleyma – eða vilja ekki muna - hvernig verðmætasköpunin í þjóðfélaginu byrjar. Hún byrjar í framleiðslunni. Hún byrjar í atvinnulífinu.

Um áratugaskeið höfum við lagt ofuráherslu á að byggja hér upp verðmætaskapandi atvinnulíf og við höfum þurft á því að halda til að afla þjóðinni tekna. Þegar illa hefur gengið og atvinnuleysi barið að dyrum, virðast flestir hafa skilið mikilvægi þessa.

Íslendingar hafa borið gæfu til að nota tímann og þau tækifæri sem hafa gefist til uppbyggingar," sagði formaður SI.

Getur verið afdrifaríkt að hafna blómlegum atvinnufyrirtækjum

Minnti Helgi á það að aðstæður geta verið fljótar að breytast og þá gæti orðið afdrifaríkt að hafa hafnað blómlegum atvinnufyrirtækjum.

Að sögn Helga þá hefðu Hafnfirðingar frekar átt að kjósa um það fyrir mörgum árum hvert þeir ættu að beina byggðinni í bænum. Dæminu hafi verið stillt upp með röngum hætti, það er byrjað á öfugum enda.

Of langt að bíða til ársins 2010

Helgi segist telja að of langt sé að bíða til ársins 2010 eftir nýtingar-og verndaráætlun stjórnvalda.

„Henni þarf að ljúka mun fyrr og eyða þeirri óvissu sem nú ríkir bæði um verndun landsvæða og stöðu þeirra sem hyggja á nýtingu auðlinda. Eðlilegt er að stjórnvöld setji reglur og ramma um nýtingu orkulinda en fyrirtæki í einkaeigu sjá um beislun þeirra og greiði fyrir nýtingu. Það á að gilda um allar auðlindir þjóðarinnar," sagði Helgi Magnússon á Iðnþingi 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka