Míla er nafn nýs fyrirtækis sem stofnað hefur verið um rekstur, uppbyggingu og viðhald fjarskiptanets Símans. Míla hefur formlega rekstur hinn 1. apríl næstkomandi en stofnun fyrirtækisins var samþykkt á aðalfundi Símans sem haldinn var í lok síðustu viku.
Á fundinum runnu tilteknir eignarhlutar í Símanum hf. og dótturfélögum Símans hf. inn í sérstakt hlutafélag, Skipti hf. sem verður móðurfélag samstæðunnar.
Míla tekur við þeirri starfsemi sem áður tilheyrði heildsölu Símans, viðhaldi og rekstri á fjarskiptanetinu og áframhaldandi þróun og uppbyggingu á því. Höfuðstöðvar Mílu verða á Stórhöfða 24-30, en starfsstöðvar verða á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum og fleiri stöðum á landsbyggðinni, að því er segir í tilkynningu.
Starfsmenn Mílu eru 220 og framkvæmdastjóri þess er Páll Á Jónsson.