Íbúðalán bankanna jukust um 3,7 milljarða í febrúar

mbl.is

Íbúðalán bankanna jukust um 3,7 milljarða króna í febrúar og námu rúmum 392 milljörðum króna í lok mánaðarins. Þetta kemur fram í tölum Seðlabanka Íslands.

Fjöldi lána er komin í 40.172 og meðalupphæð láns er um 9,4 milljónir króna. Um er að ræða talsverða aukningu frá því í janúar en það var rólegasti mánuðurinn frá því að bankarnir fóru inn á íbúðalánamarkaðinn árið 2004, að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

„Þess má hinsvegar geta að bankarnir gáfu út íbúðalán að verðmæti rúmlega 10 ma.kr. í febrúar á síðasta ári. Minnkunin milli ára er því mjög afgerandi. Íbúðalánasjóður lánaði um 3,5 ma.kr. í febrúar til almennra lána en þar var ekki mikil breyting milli mánaða. Gera má ráð fyrir því að erlend lán til einstaklinga hafi aukist í febrúar í kjölfar mikillar umræðu um verðbólgu og háa vexti á landinu," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

Í Morgunkorni kemur fram að kippur virðist vera að koma í fasteignamarkaðinn. Íbúðalánasjóður hækkaði nýlega hámarkslánsfjárhæð og hækkaði veðsetningarhlutfall úr 80% í 90%.

„Viðskiptabankarnir hafa einnig aukið aðgengi viðskiptavina sinna að lánsfjármagni til húsnæðiskaupa. Líklegt er að aukið aðgengi að lánsfjármagni skýri að hluta nýlega aukningu í veltu og hærra verð á fasteignamarkaði. En háir útlánavextir ættu að vega eitthvað á móti. Athygli vekur að talsverð verðhækkun hefur verið á húsnæði á landsbyggðinni síðustu vikur.

Vegna viðmiðunar Íbúðalánasjóðs og sumra banka um að lána ekki umfram 100% af brunabótamati, kemur breyting á veðheimildum sér betur fyrir landsbyggðina þar sem brunabótamatið er yfirleitt mun hærra en markaðsverð. Á höfuðborgarsvæðinu er þessu öfugt farið sérstaklega á eldri eignum," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka