Gjaldeyrismiðlarar taka nú að sögn fréttavefjar Bloomberg stöðu til að verja sig gegn því að Seðlabanki Íslands lækki innan skamms stýrivexti í fyrsta skipti í fjögur ár. Krónan hefur það sem af er árinu hækkað næst mest allra gjaldmiðla gagnvart dal og evru en vogunarsjóðir hafa keypt krónu vegna hárra vaxta.
Bloomberg hefur eftir Halldóri Karli Högnasyni, miðlara hjá Kaupþingi í Reykjavík, að gengisflökt gæti aukist þegar kemur fram í maí þegar fjárfestar reyni að spá fyrir um hvenær vextirnir byrji að lækka og hve mikið á þessu ári.
Vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er á morgun en allir sérfræðingar, sem Bloomberg ræddi við, reikna með óbreyttum vöxtum um sinn.
Aðeins taílenski gjaldmiðillinn hefur hækkað meira gagnvart dal og evru á þessu ári en krónan.