Glitnir: leiðrétta þarf ójafnvægi

Verðbólga er langt umfram það sem samræmist stöðugleika, ójafnvægi á utanríkisviðskiptum mikið, erlend skuldastaða há og mikil spenna á vinnumarkaði. Ljóst er að til að leiðrétta þetta ójafnvægi þarf talsverðan samdrátt í innlendri eftirspurn samhliða vexti í útflutningstekjum. Þetta kemur fram í nýútkominni þjóðhagsspá Greiningar Glitnis.

Í þjóðhagsspánni er bent á þrjár leiðir fyrir hagkerfið.

Mjúk lending

Líklegasta leiðin og sú sársaukaminnsta. Tímabil tvígengis þarf í hagkerfinu þar sem útflutningsgreinar vaxa á sama tíma og greinar sem sinna innlendri eftirspurn dragast saman. Niðurstaðan verður mjúk lending vegna þess að í tölum yfir fjárfestingu, neyslu, innflutning og útflutning skiptast á öfgafullar tölur um vöxt og samdrátt. Þá er nettóniðurstaðan ekki samdráttur landsframleiðslu á föstu verði heldur hægur vöxtur á milli ára.

Hagkerfið hefur þegar lagt af stað þessa leið. Hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar og líklega mun útflutningur taka við sér á næstunni samhliða vaxandi útflutningi áls og hagstæðara raungengi krónunnar. Þróunin hefur verið hröð og vænta má að hún muni halda áfram og að samhliða dragi frekar úr verðbólgu, viðskiptahalla og spennu í hagkerfinu. Nokkuð sveigjanlegur vinnumarkaður mun tryggja flutning vinnuafls til að jafna ólíka spurn eftir vinnuafli í útflutningsgreinum annars vegar og hjá þeim greinum sem verða að takast á við samdrátt á innlendum mörkuðum hins vegar.

Leið nautsins: þenslan heldur áfram

„Óvissan í þjóðhagsspá okkar er í þá átt að hagvöxtur í bráð verði meiri en við spáum og að aðlögun hagkerfisins að jafnvægi verði hægari. Það er vel hugsanlegt að væntingar um frekari stóriðjuframkvæmdir og frekari breytingar hagkerfisins í átt til aukinnar alþjóðavæðingar ásamt fleiri þáttum leiði til þess að ójafnvægið lagist hægt og ekki að fullu. Ójafnvægið verður þá viðvarandi næstu árin og hagvöxtur meiri en tryggt getur aðlögun að jafnvægi í bráð.

Við skilyrði viðvarandi ójafnvægis eykst óvissa í efnahagslífinu en því fylgir kostnaður sem m.a. kemur fram í hærri vöxtum. Ein leið slíkrar óvissu að hærri vöxtum mun þá vera í gegnum mat erlendra aðila á íslenskum fyrirtækjum sem lántakendum. Við skilyrði líkt og nú eru uppi í íslensku efnahagslífi, þar sem erlendar skuldir og eignir íslenskra fyrirtækja eru miklar og þegar Íslendingar eiga mikið undir trausti erlendra lánadrottna og fjárfesta, er óvissa sem þessi sérstaklega neikvæð. Þetta er því ekki álitleg leið fyrir hagkerfið að fara," samkvæmt þjóðhagsspá Greiningar Glitnis.

Leið bjarnarins: verulegur samdráttur

„Sársaukafyllsta leiðin en jafnframt sú ólíklegasta. Sést hafa spár um harkalega lendingu hagkerfisins þar sem landsframleiðsla gæti dregist saman um 5-10% á næstu tveimur árum. Ef af þessu yrði væri um að ræða einn mesta samdrátt í sögu íslenska hagkerfisins. Stoðir efnahagslífsins eru vel í stakk búnar til að takast á við hugsanlegt áfall. Eigna- og tekjustaða heimilanna hefur sjaldan verið betri, staða ríkissjóðs er betri en víðast hvar og staða fyrirtækja er góð. Fjármálafyrirtækin skiluðu metafkomu á síðasta ári þrátt fyrir mikið umrót á fjármálamarkaði, mikla lækkun gengis krónunnar, tímabundinn mótbyr á innlendum sem erlendum mörkuðum og hærri kostnað við erlenda fjármögnun.

Við teljum afar ólíklegt að hagkerfið fari þessa leið og lesa má sömu afstöðu, bæði innlendra og erlendra fjárfesta, út úr hreyfingum á fjármálamörkuðum að undanförnu. Gengi krónunnar hefur hækkað frá upphafi þessa árs, áhættuálag á skuldabréf bankanna erlendis hefur lækkað og verð hlutabréfa þeirra hækkað," samkvæmt þjóðhagsspá Greiningar Glitnis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK