Hans Petersen og Strax Holdings hafa sameinað verslunarrekstur sinn undir merkjum HP Farsímalagersins frá og með morgundeginum, 1. apríl. Strax hefur rekið Farsímalagerinn og sérhæft sig í sölu og dreifingu á farsímabúnaði. Hans Petersen mun eftir sem áður stunda heildsölurekstur með ljósmynda- og framköllunarvörur.
Áætluð velta sameinaðs félags er um 700 milljónir króna en sex verslanir verða starfræktar á höfuðborgarsvæðinu. Kjartan Örn Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri HP Farsímalagersins en hann var áður hjá Strax.